Handbolti

Snorri Steinn: Eigum fullt inni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Snorri Steinn í leik með íslenska landsliðinu.
Snorri Steinn í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Daníel
Snorri Steinn Guðjónsson sagði að íslenska liðið hafi fengið það sem það vildi úr æfingaleiknum við Portúgal í kvöld.

Ísland vann öruggan tíu marka sigur, 37-27, í síðasta heimaleik Íslands áður en EM hefst í Austurríki í næstu viku.

„Við unnum leikinn með tíu mörkum sem var fínt. Það er þó fullt sem við þurfum að laga. Það er alveg ljóst að við erum ekki að toppa á vitlausum tíma og við eigum fullt inni, bæði í vörn og sókn."

„Við höfum nú smá tíma og nú munum við kryfja þennan leik til mergjar."

Snorri sagði gott að hafa fengið að spila á móti framliggjandi vörn eins og Portúgalar beittu í kvöld. „Þjóðverjar spiluðu 6-0 vörn um helgina og við vildum því fá að spila gegn framliggjandi vörn. Við reiknum með því að Serbar munu spila þannig."

Hann sagði tilfinninguna hjá sér vera góða, eins og alltaf skömmu fyrir stórmót í handbolta.

„Það ríkir mikil tilhlökkun og við erum í góðu standi og flestir í fínu formi. Við höfum líka verið að spila ágætlega þó það sé ýmislegt sem við þurfum að bæta áður en á hólminn er komið. Við vonumst svo til þess að við munum toppa á réttum tíma."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×