Enski boltinn

Benjani fær nýtt líf hjá Roberto Mancini

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Benjani Mwaruwari í leiknum á móti Blackburn í gær.
Benjani Mwaruwari í leiknum á móti Blackburn í gær. Mynd/AFP

Simbabve-maðurinn Benjani Mwaruwari hefur nýtt langþráð tækifæri vel í síðustu leikjum Manchester City en hann var gleymdur og grafinn af flestum þegar hann var út í kuldanum hjá Mark Hughes.

Benjani fékk byrjunarliðssæti hjá ítalska stjóranum í síðustu tveimur leikjum og stóð sig vel. Hann skoraði sigurmark Manchester City í 1-0 bikarsigri á móti Middlesbrough og lagði síðan upp þrjú fyrstu mörk liðsins í 4-1 sigri á Blackburn í ensku úrvalsdeildinni í gær.

„Ég er mjög ánægður því ég er búinn að fá að byrja tvo leiki í röð og það er langt síðan það hefur gerst," sagði Benjani eftir sigurinn á Blackburn.

Benjani hefur verið að glíma mikið við meiðsli þau tvö ár sem hann hefur verið í herbúðum Manchester City og það benti margt til þess að hann færi til annaðhvort Hull eða Notts County í águst.

„Þú verður sem leikmaður að halda alltaf í vonina um að fá að spila þótt að líkurnar séu litlar. Þú verður að haga þér eins og atvinnumaður, mæta og gera þitt besta á æfingum," segir Benjani.

„Ég hef alltaf séð mig spila lengi hjá City. Ég á nú sex mánuði eftir af samningi mínum og það væri gaman að framlengja um að minnsta kosti eitt ár," sagði Benjani sem er mjög sáttur við þá stöðu sem hann er að spila undir Mancini.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×