Lífið

Sigurjón og DeNiro í tökum í Melbourne

Hér eru Robert DeNiro og Yvonne Strahovski við tökur í Melbourne um síðustu helgi.
Hér eru Robert DeNiro og Yvonne Strahovski við tökur í Melbourne um síðustu helgi.

Tökur á kvikmyndinni The Killer Elite eru nú í fullum gangi í Melbourne en meðal framleiðenda myndarinnar er Sigurjón Sighvatsson.

Stórleikarinn Robert De Niro fer með eitt aðalhlutverkanna í myndinni auk bresku stjarnanna Clive Owen og Jason Statham. Helsta kvenhlutverkið er síðan í höndum Yvonne Strahovski en hún leikur einmitt Söruh Walker í gamanþáttunum Chuck sem slegið hafa í gegn hér á Íslandi. Þá leikur Dominic Purcell einnig í myndinni en hann er þekktastur fyrir leik sinn í Prison Break.

Sigurjón sagði í samtali við Fréttablaðið í vor að De Niro hefði gefið myndinni byr undir báða vængi. Framleiðslukostnaðurinn hljóðar upp á heila átta milljarða króna og eru það meðal annars Ástralir sem leggja til peninginn.

Í Melbourne var búið að planta gömlum bílum á göturnar en senurnar eiga að gerast í París árið 1979.

„Þetta verður stærsta kynningarmyndin á Cannes, allavega verður þetta sú kvikmynd sem er með stærstu stjörnunum ... Þótt leikstjórinn, Gary McKendry, hafi ekki áður gert svona stóra mynd þá hefur handritið spurst vel út og umboðsmenn hafa látið sína skjólstæðinga vita af því. Það segir sitt ef De Niro ákveður að leika í myndinni," sagði Sigurjón.

Myndin er byggð á ævisögu Sir Ranulphs Fiennes sem kom út árið 1993 og olli miklu fjaðrafoki á sínum tíma. Enda upplýsti Fiennes þá um tilveru SAS-sérsveitanna sem bresk stjórnvöld höfðu þvertekið fyrir að væru til.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.