Skoðun

Misvægi atkvæða í ESB

Kristinn H. Gunnarsson skrifar
Ritstjóri Fréttablaðsins telur misvægi atkvæða vera brot á grundvallarmannréttindum og segir að stjórnmálafræðingar hafi ekki fundið í veröldinni jafnkerfisbundna mismunun og hann telur vera hér á landi. Með þessu styður hann þá skoðun sína að landið eigi að vera eitt kjördæmi og finnur að því í skoðun föstudagsblaðsins að ég skuli vera annarrar skoðunar.

Nú liggja fyrir úrslit í kosningunni til stjórnlagaþings þar sem landið var eitt kjördæmi. Það fyrirkomulag leiðir greinilega fram að meirihlutinn fær ekki aðeins meirihluta þingsæta heldur nánast öll. Minnihlutinn fær nánast enga fulltrúa kjörna af sínu landsvæði. Kjósendur á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Austurlandi, Suðurlandi og Suðurnesjum eru sviptir fulltrúum sínum. Þetta misvægi er miklu meira en það sem ritstjóri Fréttablaðsins gagnrýnir, en lætur samt nú óátalið. Það skipir líklega öllu máli á hvorn veginn misvægið er.

Misvægi atkvæða er víða þekkt og er rökstutt með því að líta til allra þátta og vega þá og meta saman. Íbúar í höfuðborg Bandaríkjanna fá ekki að kjósa til öldungadeildar, þar sem þeir hafi mikil áhrif fyrir í krafti aðseturs þingsins og ríkisstjórnar. Misvægi atkvæða í Kaliforníu og Alaska er 1:54, en bæði ríkin kjósa 2 fulltrúa til öldungadeildar. Misvægi atkvæða í Bretlandi milli kjördæma var mest 1:4 síðast þegar ég leit á það.

En kannski er athyglisverðast misvægið milli landa í kosningum til Evrópuþingsins. Ég hygg að ritstjóri Fréttablaðsins sé fylgjandi því að Íslendingar gangi í Evrópusambandið. Í kosningunum í fyrra var misvægi atkvæða milli kjósenda í Möltu og Danmörk 5:1, milli Danmerkur og Þýskalands 2:1 og milli Möltu og Þýskalands 10:1.

Þetta er fyrirkomulag sem ritstjórinn segir vera brot á grundvallarmannréttindum, en ESB og aðildarlönd þess ekki. Ef Íslendingar ganga í sambandið og fá jafnmarga þingmenn og Malta þá vex mesta misvægi atkvæða upp í 15:1. Ég veit ekki annað en að íslensk stjórnvöld geri kröfu til þess að fá þetta misvægi atkvæða.

 




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×