Viðskipti erlent

Apple gæti orðið verðmætasta fyrirtæki heimsins í dag

Tölvurisinn Apple gæti orðið verðmætasta fyrirtæki heimsins í dag. Þá leggur Apple fram ársfjórðungsuppgjör sitt og sérfræðingar reikna með að hagnaðurinn af rekstrinum nemi um 5 milljörðum dollara eða um 550 milljörðum króna.

Gangi þetta eftir mun Apple velta olíurisanum Exxon úr sessi sem verðmætasta fyrirtæki heimsins. Í frétt um málið í Guardian segir að á þriðja ársfjórðungi ársins hafi Apple selt 5 milljónum fleiri iPads og 12 milljónum fleiri iPhones en á fyrri ársfjórðungi.

Fram kemur í fréttinni að hlutir í Apple hafi hækkað gífurlega að undanförnu og standa nú í tæpum 315 dollurum á hlut. Verðmatið á Apple fyrir uppgjörið er tæplega 290 milljarðar dollara. Verðmætið á Exxon er hinsvegar rúmlega 330 milljarðar dollara. HInsvegar hafa hlutir í Apple hækkað um 67% á liðnu ári á meðan hlutir í Exxon hafa fallið um 11% á sama tíma.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×