Innlent

Erlendir fréttamenn á leiðinni vegna Icesave

Heimir Már Pétursson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson.

Fjármálaráðherra Bretlands segir afar mikilvægt að forseti Íslands staðfesti Icesave lögin, þótt hann geri sér grein fyrir að málið sé Íslendingum erfitt. Ekki liggur fyrir hvenær forsetinn ákveður sig, en alveg eins má búast við að það gerist í dag. Áhugi erlendis er mikill á málinu en fréttastofu er kunnugt um að erlendir fréttamenn séu á leiðinni til landsins til þess að fjalla um málið.

Alistar Darling fjármálaráðherra Bretlands sagði á fundi með fréttamönnum í dag að afar mikilvægt væri að Ólafur Ragnar Grímsson staðfesti lögin. Mörgum árangursríkum mánuðum hafi verið eytt í samningaviðræður við íslensk stjórnvöld til að tryggja endurgreiðslur lána breska og hollenska ríkisins vegna útgjalda þeirra í tengslum við Icesave reikninga Landsbankans. Darling viðurkenndi að málið væri íslenskum stjórnvöldum erfitt.

En bresk stjórnvöld hefðu lagt út fyrir Icesave-skuldbindingunum við erfiðar aðstæður í Bretlandi og samningarnir gerðu ráð fyrir endurgreiðslum Íslendinga á sanngjörnum tíma. Nú eru fjórir dagar frá því forsetinn fékk Icesave lögin til sín á ríkisráðsfundi á gamlársdag. Þegar hann fyrstur forseta neitaði að staðfesta lög frá Alþingi 2. júní 2004, kynnti hann þá niðurstöðu sína að staðfesta ekki fjölmiðlalögin aðeins tæpum sólarhring eftir að hann fékk lögin í hendur.

Það má því allt eins búast við því að forsetinn greini frá ákvörðun sinni í dag, þótt engin svör fáist um það á skrifstofu forsetans. Greint hefur verið frá ákvörðun forsetans um að taka sér umhugsunarfrest í málinu í erlendum fjölmiðlum og fullyrt að staða Íslands meðal þjóðanna muni versna hafni forsetinn að staðfesta lögin. Þá er fréttastofu kunnugt um að erlendir fréttamenn séu á leið til landsins vegna málsins.

Samtök atvinnulífsins vilja að forseti Íslands staðfesti Icesave lögin. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri samtakanna segir á vefsíðu þeirra í dag að þetta sé mál sem Alþingi sé búið að samþykkja og hann sé almennt þeirrar skoðunar að forsetinn eigi að staðfesta lög frá Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×