Enski boltinn

Enginn enskur í byrjunarliðunum í leik Portsmouth og Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brasilíski Króatinn Eduardo og Frakkinn Younes Kaboul  í leiknum á miðvikudagskvöldið.
Brasilíski Króatinn Eduardo og Frakkinn Younes Kaboul í leiknum á miðvikudagskvöldið. Mynd/AFP

Það voru fleiri Íslendingar en Englendingar í byrjunarliðum Portsmouth og Arsenal þegar liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni á miðvikudagskvöldið. Hermann Hreiðarsson var á sínu stað hjá Portsmouth en enginn Englendingur var hinsvegar meðal þeirra 22 leikmanna sem hófu leikinn.

Sam Allardyce, stjóri Blackburn Rovers,vakti athygli á þessari staðreynd á blaðamannafundi fyrir bikarleik liðsins á móti Aston Villa.

„Framtíð enska landsliðsins er mjög dapurleg," sagði Allardyce og bætti við: „Enska knattspyrnusambandið og enska úrvalsdeildin þurfa að setjast niður og fara yfir þær leiðir sem eru færar til þess að snúa við þessari þróun," sagði Allardyce.

Þeir 22 leikmenn sem byrjuðu leik Portsmouth og Arsenal voru frá fimmtán löndum þar af voru sjö Frakkar sem hófu leik. Auk þeirra voru tveir Alsírmenn í byrjunarliðunum en þar var líka einn leikmaður frá eftirtöldum löndum: Bosníu, Írlandi, Ísrael, Íslandi, Suður-Afríku,Skotlandi, Þýskalandi, Spáni, Belgíu, Wales, Kamerún, Króatíu og Rússlandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×