Fótbolti

Mótmæli á San Siro í kvöld til stuðnings Mourinho

Ómar Þorgeirsson skrifar
Það verður mikið um að vera á San Siro-leikvanginum í kvöld.
Það verður mikið um að vera á San Siro-leikvanginum í kvöld. Nordic photos/AFP

Harðkjarnastuðningsmenn Inter, svokallaðir Ultras-hópar, munu leiða skipulögð mótmæli á San Siro-leikvanginum fyrir leik Inter og Chelsea í Meistaradeildinni í kvöld.

Ultras-hóparnir ætla að leika eftir látbragði knattspyrnustjórans José Mourinho sem þóttist vera með hendurnar í handjárnum á meðan á leik Inter og Sampdoria stóð í ítölsku deildinni á dögunum eftir að Ítalíumeistararnir höfðu misst tvo leikmenn útaf með rautt spjald strax í fyrri hálfleik leiksins.

Mourinho var í kjölfarið dæmdur í þriggja leikja bann af aganefnd ítalska knattspyrnusambandsins fyrir látalætin og fyrir að svívirða ítrekað dómarann á meðan á leinkum stóð og í leikmannagöngunum á leið til búningsherbergja eftir leik.

Mourinho hefur sjálfur lýst því yfir að látbragð hans hafi verið mistúlkað og Inter hefur áfrýjað banninu en stuðningsmennirnir ætla með mótmælunum að styðja við málsstað Portúgalans málglaða og uppátækjasama.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×