Lífið

Norrænt velferðarLókal

Lókal, alþjóðlegri leiklistarhátíð í Reykjavík, var hleypt af stokkunum í gær og stendur hún fram á sunnudag. Norræn leikverk eru í öndvegi á hátíðinni, en norræn samtímaleikritun hefur átt erfitt uppdráttar í íslenskum leikhúsum undanfarin ár.

Að þessu sinni verða sýnd sex verk á Lókal-hátíðinni, tvö íslensk, eitt þýskt og fjögur frá Noregi, Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð.

Hátíðina skipuleggja Ragnheiður Skúladóttir, Bjarni Jónsson og Guðrún Jóhanna Guðmundsdóttir. „Við ákváðum að hafa norræna áherslu á hátíðina í ár en buðum Rimini Protokoll, leikhópi frá Berlín sem hlaut Evrópsku leiklistarverðlaunin 2008, sem sérlegum gesti."







Heimildarverk

Að sögn Ragnheiðar má skipta verkum hátíðarinnar í tvo flokka: heimildarverk og afbyggjandi verk. Í fyrri flokkinn falla verk Rimini Protokoll, norska sýningin Draumurinn og íslensku sýningarnar Nígerusvindlið og The Great Group of Eight.

„Í sýningu Rimini Protocol stígur fram kona, blaðamaður reyndar, sem segir frá ævi sinni sem hófst í Suður-Kóreu, þar sem hún fannst pökkuð inn í dagblöð. Hún var ættleidd til Þýskalands og þegar hún vildi síðar leita uppruna síns hafði hún ekkert í höndunum. Hún leitaði því til Decode og fékk genakort wkemur Íslandstengingin. Sýningin fjallar meðal annars gagnrýnið um ættleiðingar og það er mjög áhugavert.

Draumurinn er sjónræn sýning og um leið persónuleg frásögn leikarans og fellur undir skilgreininguna heimildarverk. Sama má segja um íslensku sýningarnar tvær."





Afbyggjandi verkÍ seinni flokknum eru verk sem ganga út á afbyggingu þekktra leiktexta. „Í dönsku sýningunni leikur hópurinn sér með Dverginn eftir Pär Lagerkvist, undir stjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar. Í sænsku sýningunni fara tveir leikarar með öll hlutverk í Afturgöngum Ibsens. Og í finnsku sýningunni má segja að hafi verið snúið á kerfið.

Hópurinn sóttist eftir því að setja upp Undantekninguna eftir Brecht en fékk ekki leyfi frá ættingjum skáldsins. Hópurinn ákvað því að búa til sína eigin útgáfu af verkinu."



Norræn verk orðið útundan

Norræna áhersla hátíðarinnar leiðir hugann að því að nýleg norræn leikrit hafa verið afar fátíð í íslenskum leikhúsum undanfarin ár. Undir það tekur Ragnheiður.

„Það er dálítið merkilegt. Okkur datt þessi norræna áhersla í hug á finnskri leiklistarhátíð fyrir tveimur árum. Þar sáum við meðal annars uppfærslur af verkum sem höfðu verið tilnefnd til Norrænu leiklistarverðlaunanna og hugsuðum einmitt af hverju þessi verk væru ekki sýnd á Íslandi.

Okkar getgáta er sú að íslenskt leikhúsfólk sé of gjarnt á að líta sér fjær.

Það er gífurleg gróska og mikil samvinna í leikhúslífi hinna Norðurlandanna, sem við höfum því miður ekki tekið mikinn þátt í. Í starfi mínu sem deildarforseti leiklistardeildar LHÍ finn ég hins vegar að það er að verða ákveðin vakning í samstarfi við norræna skóla og á eflaust eftir að verða vísir að meiru.





Á erlendri tunguÖll leikrit hátíðarinnar eru flutt á frummálinu, fyrir utan verk Rimini Protokoll, sem er á ensku. Ragnheiður telur tungumálaörðugleika ekki eiga eftir að setja strik í reikninginn. „Flestir hafa einhverja kunnáttu í norðurlandamálum en á heimasíðu okkar og við inngang sýninganna má nálgast úrdrátt á ensku fyrir öll verkin, nema Dverginn. Það vill hins vegar svo til að þessar sýningar eru allar mjög sjónrænar og innihalda mikla tónlist, svo flestir ættu að geta notið þeirra."

bergsteinn@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.