Enski boltinn

Villas-Boas vildi ekki ræða framtíð sína

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andre Villas-Boas á hliðarlínunni í dag.
Andre Villas-Boas á hliðarlínunni í dag. Nordic Photos / Getty Images
Andre Villas-Boas vildi ekkert ræða um framtíð sína hjá Chelsea eftir 3-1 tap liðsins fyrir Aston Villa í dag.

Stuðningsmenn Chelsea púuðu þegar að leiknum lauk enda í fyrsta sinn í áratug sem að Chelsea er ekki í hópi fjögurra efstu liða deildarinnar um áramót.

Roman Abramovich, eigandi Chelsea, hefur ekki sýnt fram á mikla þolinmæði gagnvart knattspyrnustjórum hingað til og setti það til að mynda ekki fyrir sig að reka Jose Mourinho úr starfi á sínum tíma.

Villas-Boas var spurður eftir leik um framtíð sína hjá Chelsea. „Þið verðið að spyrja eigandann að því en ég hef ekki fengið neinar nýjar upplýsingar um mín samningsmál," sagði Villas-Boas.

Hann var svo spurður hvort það væri lágmarkskrafa að liðið væri í hópi fjögurra efstu liða deildarinnar. „Ég held að lágmarkskrafan sé að vera í fyrsta sæti. Við erum nú í fimmta sæti og við verðum að bíða og sjá."

„Það góða er að þetta getur allt breyst á næstu 48 klukkustundum. Það er gott og við fáum aftur tækifæri til að gera eitthvað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×