Enski boltinn

Ferguson ætlar að vera í þrjú ár í viðbótar hjá United

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images
Sir Alex Ferguson, sem heldur upp á sjötugsafmæli sitt í dag, segist eiga þrjú ár eftir í starfi hjá Manchester United - hann ætli því að þjálfa liðið til loka tímabilsins 2014.

Þetta sagði hann í viðtali sem birtist á MUTV-sjónvarpsstöðinni í dag. Hann tilkynnti árið 2001 að hann myndi hætta ári síðar en dró þá ákvörðun síðan til baka.

„Ég held að ég eigi þrjú ár eftir hjá félaginu," sagði Ferguson í viðtalinu. „Ég mun halda áfram ef heilsan leyfir. Ég nýt þess að sinna þessu starfi og fæ mikla ánægju af því að sjá liðið standa sig eins vel og mögulegt er."

„Við höfum tapað okkar leikjum en miðað við þann árangur sem við höfum náð saman er það smávægilegt í samanburði."

Ferguson var einnig í viðtali í leikskrá United sem var gefin út fyrir leik liðsins gegn Blackburn í dag.

„Þetta er stórafmæli og ætli það sé ekki óumflýjanlegt að stuðningsmenn Manchester United velti fyrir sér hvort að sjötugur maður geti stýrt þessu frábæra félagi," sagði hann í viðtalinu.

„En ég elska starfið mitt og ætla ekki að láta aldurinn hafa úrslitaáhrif á mín störf. Heilsan skiptir menn á mínum aldri mestu máli og sem betur fer hef ég enn úthald og orku til að sinna þessu krefjandi starfi."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×