Enski boltinn

Gerrard: Við óttumst ekki Manchester City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Liverpool mætir Manchester City þrívegis í janúarmánuði, í deildinni þann 3. janúar næstkomandi og svo tvívegis í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar.

Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, segir að leikmenn liðsins hafi ekkert að óttast fyrir leik liðanna á Ettihad-vellinum á þriðjudaginn kemur.

„City er með frábært lið sem hefur byrjað tímabilið mjög vel. En við höfum ekkert að óttast," sagði Gerrard sem er byrjaður að spila á ný eftir þrálát meiðsli. Hann skoraði þriðja mark sinna manna í 3-1 sigri á Newcastle í gærkvöldi.

„Við sýndum þeim fyrir nokkrum vikum síðan að við getum staðist þeim fyllilega snúning," bætti hann við en liðin skildu jöfn, 1-1, fyrir rúmum mánuði síðan.

„Það er spennandi að spila svona leiki, við óttumst þá alls ekki - þetta eru leikirnir sem allir vilja spila. Ég get ekki beðið."

„Við höfum verið góðir á útivelli. Úrslitin á heimavelli hafa ekki verið nógu góð en við förum til fullir sjálfstrausts í þennan leik engu að síður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×