Enski boltinn

Macheda á leið til QPR og Frimpong fer til Wolves

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Federico Mancheda, sóknarmaðurinn ungi hjá Manchester United, verður sennilega lánaður til nýliðanna í QPR til loka leiktíðarinnar. Þá hefur Emmanuel Frimpong, miðjumaður Arsenal, verið lánaður til Wolves.

Mick McCarthy, stjóri Úlfanna, staðfesti þetta eftir leik liðsins við Norwich í dag. „Ég vona að hann geti spilað með okkur gegn Chelsea á mánudaginn. Þetta er frábær ungur leikmaður,“ sagði hann.

Eggert Gunnþór Jónsson gekk nýverið til liðs við Wolves og verður gjaldgengur í leiknum gegn Chelsea.

Umboðsmaður Macheda sagðist vera 95 prósent viss um að lánin myndu ganga í gegn en hann hafði einnig verið orðaður við Wigan. „Það er mun líklegra að hann fari til QPR. Hann þarf að spila en mun svo snúa aftur til United því að Alex Ferguson vill fá hann aftur."

Frimpong er nítján ára gamall og hefur komið við sögu í fjórtán leikjum með Arsenal á leiktíðinni. Hann hefur verið í herbúðum Arsenal síðan hann var níu ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×