Erlent

Æfir yfir því að geimskutla verði geymd á safni í New York

Geimskutlan Enterprise á safni.
Geimskutlan Enterprise á safni.
Fimmtán þingmenn Repúblikanaflokksins í Houston í Bandaríkjunum berjast hatrammlega gegn því að geimskutla, sem hætt er að nota, verði vistuð á safni í New York.

Til stendur að sýna geimskutluna Enterprise á safni í New York en þingmennirnir frá Houston eru æfir yfir málinu, þá ekki síst vegna þess að Nasa stjórnar geimferðunum frá Houston.

Þannig rökstyður einn þingmaðurinn mál sitt þannig að þegar geimfararnir lentu á tunglinu, þá sögðu þeir ekki New York - heldur Houston - eins og frægt er orðið.

Annar þingmaður segir hugmyndina um að setja skutluna á safn í New York sérkennilega. Hann bendir á að hugmyndin sé jafn galin og að ef Frelsisstyttan væri flutt til Omaha í Mið-Bandaríkjunum.

Þingmennirnir hafa ennfremur hótað því að þeir muni beita öllum mögulegum ráðum til þess að koma í veg fyrir að skutlan endi í stóra eplinu. Það var geimferðastofnunin sjálf sem ákvað að skutlan yrði geymd í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×