Innlent

Afdrif ofbeldismannsins býsna endaslepp

Það skyti skökku við ef ofbeldismenn fengju hraðari afgreiðslu á húsnæðisvandræðum sínum en brotaþolar, segir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. Hún telur að lög sem leyfi að ofbeldismenn séu fjarlægðir af heimilum sínum hefðu gagnast betur ef þeir fengju strax meðferð við sinni ofbeldishneigð.

Austurríska leiðin var lögleidd á Alþingi nú í júní, sem þýðir að ef rökstuddur grunur er um ofbeldi á heimili verður hægt að fjarlægja ofbeldismanninn af heimili hans í allt að fjórar vikur í senn. Í fréttum RÚV í gærkvöldi kom fram að félagsþjónustu sveitarfélaga verði skylt að útvega ofbeldismanninum húsaskjól hafi hann ekki í önnur hús að venda. Raunar er ekkert slíkt ákvæði í lögunum sjálfum, hins vegar er lögreglu skylt að tilkynna félagsþjónustunni þegar hún fjarlægir ofbeldismann af heimili sínu og það er lögbundið hlutverk félagsþjónustunnar að hýsa þá sem eiga engan samastað. Þetta er því óbein afleiðing hinna nýju laga.

Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, hefur fagnað lögleiðingu austurrísku leiðarinnar en furðar sig á tilkynningaskyldunni, konur sem leiti í Kvennaathvarfið þurfi sjálfar að leita aðstoðar félagsþjónustu þurfi þær á henni að halda.

„Nú sjáum við konur bíða eftir félagslegu húsnæði í vikur og jafnvel mánuðum saman. Mikið neyðarúrræði sem það er og mér myndi nú finnst það skjóta skökku við ef að ofbeldismenn fengu hraðari fyrirgreiðslu heldur en brotaþolar," segir Sigþrúður.

Sigþrúður segir afdrif ofbeldismannsins í lögunum býsna endaslepp og hefði viljað sjá að hann kæmist í meðferð. Hún segir að lögin hefðu gagnast betur ef ofbeldismannsins biði einhver úrræði og hann fengi strax meðferð við sinni ofbeldishneigð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×