Innlent

Sérfræðingahópur Jóns gagnrýnir kvótafrumvarpið

Mynd/Anton Brink
Fimm manna sérfræðinganefnd sjávarútvegsráðherra gagnrýnir frumvarp ráðherrans um breytingar á stjórn fiskveiða harðlega. Frumvarpið geri nýliðun í greininni erfiða og álögur á útgerðina verði of miklar.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, skipaði fimm manna hóp sérfræðinga í apríl til að fara yfir hagræna þætti frumvarps hans um breytingar á stjórn fiskveiða. Frumvarið er nú til umfjöllunar í sjávarútvegsnefnd Alþingis eftir fyrstu umræðu.

Í Fréttablaðinu í dag er greint frá því að hópurinn telji að auðlindagjaldið sem lagt er til í frumvarpinu geti langt í frá talist hóflegt, þegar horft sé til annarra gjalda sem frumvarpið geri ráð fyrir að útgerðin standi undir. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir samningum um nýtingarrétt veiðiheimilda til fimmtán ára með möguleika á framlengingu leyfanna. Þetta telur sérfræðingahópurinn vera allt of skamman tíma og gera útgerðinni erfitt fyrir um langtímaáætlanir. Þá sé algert bann við veðsetningum veiðiheimilda verulega íþyngjandi.

Hópurinn gagnrýnir líka að setja eigi hluta aflaheimilda í potta sem ráðherra sjá síðan um að deila úr. Þetta feli ráðherra of mikil völd. Stjórnmálamenn séu ekki ólíkir öðru fólki og taki ákvarðanir sem taki mið af eigin hag. Þá telur hópurinn að takmarkanir á framsali veiðiheimilda geri nýliðun í greininni erfiða. Þá er varað við því að sjávarútvegurinn sé notaður til að ná fram byggðarpólitískum markmiðum. Það dragi úr rekstrarlegri hagkvæmni og þar með samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðavettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×