Innlent

Kjarasamningar í uppnámi

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Svo gæti farið að kjarasamningar, sem náðust eftir margra mánaða viðræður, verði hleypt í uppnám í næstu viku vegna aðgerða sem ríkisstjórnin lofaði en aðilar vinnumarkaðarins telja hana ekki hafa efnt.

Eftir langa samningarimmu náðust kjarasamningar á almennum vinnumarkaði núna í byrjun maí - og þeir voru síðan samþykktir af félögum með miklum meirihluta atkvæða. Samningarnir ná til tugþúsunda manna á vinnumarkaði og eru til þriggja ára. Nú gæti hins vegar babb verið komið í bátinn því óðum styttist sá frestur sem stjórnvöld hafa til að standa við sinn hluta samninganna. Forsenda þess að samningarnir gildi til þriggja ára er að stjórnvöld fari í ákveðnar aðgerðir og samþykki lagabreytingar fyrir 22. júní. Ef ekki geta ASÍ og SA ógilt samningana sem þýðir að þeir myndu renna úr gildi fyrsta febrúar á næsta ári og þá þyrfti að semja enn á ný.

Meðal þess sem ríkisstjórnin lofar að gera í yfirlýsingu tengdum samningunum er að auka hagvöxt í 4-5%, efla fjárfestingar, að ríkið ráðist í fjölda verklegra framkvæmda og ýmislegt fleira. Ekki verður af orðum aðila vinnumarkaðarins í Fréttablaðinu í dag, ráðið að þeir telji stjórnvöld hafa efnt sinn þátt í samningunum. Þannig segir forseti Alþýðusambandsins að opinberar framkvæmdir ættu að vera komnar lengra á veg, hagvaxtarspár byggi á því, fari hagvöxtur ekki í gang sé hrein skelfingaratburðarrás framundan með frekari niðurskurði og skattahækkunum.

Þá segir Helgi Magnússon, stjórnarmaður í framkvæmdastjórn SA, að menn hafi gengið býsna langt í launahækkunum í trausti þess að hagvöxtur ykist og að óvissu yrði eytt í sjávarútvegi. Ekkert af því sé að ganga eftir.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það tvennt sem vinnuveitendur séu ósáttir við í málinu sé: „Við höfum áhyggjur annars vegar af stórum fjárfestingunum í atvinnulífinu og hins vegar samgöngumálunum sem virðist ekki hafa verið mikill áhugi á að koma fram. Varðandi sjávarútvegsmálin þá er sú atburðarás vel þekkt og hún var ekki í neinu samræmi við það sem um var talað.

En hversu líklegt telur Vilhjálmur að forsendubrestur verði? „Ég skal ekkert segja um það, en á meðan ákvörðun er ekki tekin þá getur þetta væntanlega farið á hvorn veginn sem er.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×