Innlent

Ekki vísbendingar um frekari óróa

Skjálftahrinan varð í sunnanverðum Langjökli í morgun.
Skjálftahrinan varð í sunnanverðum Langjökli í morgun. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Jarðskjálftahrina varð í Geitlandsjökli í sunnanverðum Langjökli um klukkan átta í morgun. Jarðskjálftahrinan stóð yfir í um 15 mínútur og mældust stærstu skjálftarnir rúmlega þrjú stig á richter. Sigþrúður Ármannsdóttir, landfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir skjálftana þó ekki hafa verið marga eða um tíu talsins.

Um 20 skjálftar hafa mælst á þessu svæði frá miðnætti en flestir þeirra voru smáir. Þrír mældust þó yfir þrjá á richter og fundust þeir meðal annars í Húsafelli.  „Við fengum tvær tilkynningar frá sumarbústaðaeigendum í Húsafelli. Þeir fundu fyrir þessum stærstu.“

Einn vægur jarðskjálfti varð svo upp úr klukkan níu í morgun en síðan þá hefur allt verið með kyrrum kjörum á svæðinu, sem er algengt jarðskjálftarsvæði. „Við fáum oft skjálfta í Geitlandsjökli. Það var smá hrina í síðustu viku. Þannig að þetta er ekki óþekkt svæði,“ segir Sigþrúður.

Skjálftahrinan gefur ekki vísbendingar um frekari óróa. „Ekki er það að sjá enn sem komið er,“ segir Sigþrúður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×