Lífið

Cortes-feðgar taka upp plötu saman í fyrsta skipti

Garðar Thór Cortes og Garðar Cortes vinna nú að dúettaplötu sem kemur út í haust.
Garðar Thór Cortes og Garðar Cortes vinna nú að dúettaplötu sem kemur út í haust. fréttablaðið/gva
„Þetta leggst mjög vel í mig. Ég hef lengi viljað búa til plötu með pabba, þannig að við hlökkum báðir til,“ segir söngvarinn Garðar Thór Cortes.

Feðgarnir Garðar Thór Cortes og Garðar Cortes vinna nú saman að plötu sem kemur út í haust. Karl Olgeirsson sér um tónlistarstjórnina og nú er verið að leggja lokahönd á útsetningarnar í Svíþjóð. Upptökur á sinfóníuhljómsveit og kórum fara fram í Hörpu í ágúst.

Af hverju núna?

„Það er langt síðan ég gaf út plötu síðast. Svo ég held að það sé kominn tími til að ég syngi inn á aðra plötu,“ segir Garðar og bætir við að það hafi blundað í feðgunum í einhvern tíma að taka upp plötu saman.

Platan mun innihalda fjórtán lög sem flestir ættu að kannast við, að sögn Garðars, en þeirra á meðal eru Draumalandið, Í fjarlægð, Sjá dagar koma og Maístjarnan. „Þetta eru söngperlur sem allir þekkja, en hafa aldrei myndað heila plötu í útsetningum fyrir dúett. Svo að það er eitthvað nýtt,“ segir Garðar. „Það er alltaf gaman og spennandi að takast á við eitthvað sem er aðeins öðruvísi.“

Nú eru þið báðir hoknir af reynslu, en heldurðu að hann ætli að segja syninum til í hljóðverinu?

„Eflaust. Þannig á það að vera. Við höfum unnið oft og vel saman, þannig að við þekkjum inn á hvor annan og erum ófeimnir við að koma með hugmyndir og uppástungur. Hann hefur oft stjórnað mér á sviði, þannig að þetta verður bara gaman.“

En nú er langt síðan þú sendir síðast frá þér plötu. Hvar hefurðu haldið þig?

„Hér heima og erlendis. Ég er alltaf að syngja. Alltaf að.“

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.