Innlent

Liðsmenn meirihlutaflokka ekki einhuga

Ögmundur Jónasson Innanríkisráðherra er andvígur því að stjórnlagaþingmenn úr ógildri kosningu verði skipaðir í stjórnlagaráð í staðinn.FRéttablaðið/Stefán
Ögmundur Jónasson Innanríkisráðherra er andvígur því að stjórnlagaþingmenn úr ógildri kosningu verði skipaðir í stjórnlagaráð í staðinn.FRéttablaðið/Stefán
Ekki er alger einhugur í flokkunum fjórum sem stóðu að áliti meirihluta nefndar um að 25 einstaklingar sem efstir urðu í ógildu kjöri til stjórnlagaþings verði skipaðir í sérstakt stjórnlagaráð.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra úr VG, sagði í gær að tillagan gengi gegn dómi Hæstaréttar um ógildingu kosningarinnar. Birkir Jón Jónsson, alþingismaður úr Framsóknarflokki, lýsti sig sömuleiðis andvígan tillögunni í gær og er því á öndverðum meiði við Höskuld Þórhallsson, flokksbróður sinn úr þingmannanefndinni.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í gær að þingsályktunartillaga um stjórnlagaþingið yrði lögð fram á næstu dögum. Enn fremur yrði lagt fram frumvarp um að afnema lögin sem kosið var eftir til stjórnlagaþingsins.

„Ég á ekki von á öðru en að tillagan njóti yfirgnæfandi stuðnings í þingflokki Samfylkingarinnar,“ segir þingflokksformaðurinn Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Birgitta Jónsdóttir, formaður þingflokks Hreyfingarinnar, segir alla þrjá þingmenn flokksins styðja málið þótt það sé á veikum grunni.

„Það sem skipti höfuðmáli í okkar huga er að það sé í höndum ráðsins hvenær það kallar eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um sínar tillögur,“ segir Birgitta sem kveður þetta atriði munu verða skýrt í þingsályktunartillögunni.

Sjálfstæðismenn skiluðu einir minnihlutaáliti í nefndinni. Einar K. Guðfinnsson, varaformaður þingflokks sjálfstæðismanna, sagði alla liðsmenn hans andvíga tillögunni. „Við erum algjörlega á móti þessum skrípaleik og teljum þetta skýrt merki um einbeittan vilja til að sniðganga vilja Hæstaréttar,“ segir Einar.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×