Tónlist

Ómar endurvekur Gáttaþef á jólaballi

Ómar Ragnarsson, Gáttaþefur og Stórsveit Reykjavíkur halda barnaball í Háskólabíói á morgun.
Fréttablaðið/gva
Ómar Ragnarsson, Gáttaþefur og Stórsveit Reykjavíkur halda barnaball í Háskólabíói á morgun. Fréttablaðið/gva
„Þetta verður í anda gömlu stóru jólaballanna, þar sem börnin taka þátt og syngja með,“ segir fréttamaðurinn og skemmtikrafturinn Ómar Ragnarsson.

Stórsveit Reykjavíkur heldur jólatónleika barnanna í Háskólabíói á morgun klukkan 15. Leikin verða lög af jólaplötunni Gáttaþefur í glöðum hópi, sem kom út árið 1971. Gáttaþefur og Ómar Ragnarsson sjálfur skipta með sér söngnum á tónleikunum, en öll lögin af plötunni verða leikin. „Það eru nákvæmlega 50 ár síðan ég samdi fyrstu jólatextana, Jólasveinninn minn og Sjö litlar mýs. Og það eru 40 ár frá því að þriðja Gáttaþefsplatan kom út. Þannig að þetta er tvöfalt afmæli,“ segir Ómar. „Það verður mikið grín og mikið gaman þegar Gáttaþefur ákveður að stökkva til byggða í einn dag. Þetta verður skemmtilegt og fjölbreytt.“

Hefurðu alltaf jafn gaman af því að bregða þér í þetta hlutverk?

„Þegar maður er búinn að hvíla það svona lengi er sérstaklega gaman að syngja með svona skemmtilegum útsetningum. Sum lögin fá alveg nýtt líf. Þetta verður til þess að Gáttaþefur verður á hálfum tónleikunum og ég sjálfur á hinum helmingnum. Þetta svíngar svo vel að ég mátti til með að fá að syngja. Það kemur fullt af fólki upp á svið og tekur þátt í þessu. Og 70 barna kór!“

Miðaverð er 3.000 krónur og miðasala fer fram á Midi.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×