Lífið

Tímaritið Q segir Ólaf Ragnar fyrrum rótara Zeppelin

Robert Plant var kjörinn maður síðasta árs af Q.
Robert Plant var kjörinn maður síðasta árs af Q.

Eitt stærsta tónlistartímarit Bretlands, Q, heldur því fram í nýjasta tölublaði sínu að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hafi verið rótari á tónleikum með rokkurunum í Led Zeppelin.

Þar er vafalítið verið að vísa til sögufrægra tónleika sveitarinnar í Laugardalshöll 1970. Þessi dularfulli staðreyndarmoli er settur fram í tilefni þess að Robert Plant, fyrrverandi söngvari Led Zepplin, var kjörinn maður síðasta árs af tímaritinu.

Ólafur Ragnar hefur hingað til ekki verið þekktur sem rokkáhugamaður, hvað þá rótari, og koma þessi skrif því verulega á óvart. Ef farið er rúm fjörutíu ár aftur í tímann lauk Ólafur, sem þá var 27 ára, doktorsnámi sínu í stjórnmálafræði við Manchester-háskóla. Sama ár flutti hann til Íslands og hóf kennslu við Háskóla Íslands.

Til að fá það staðfest hvort forsetinn hafi þetta ár í raun og veru tekið sér frí frá fræðistörfum sínum til að gerast aðstoðarmaður goðsagnanna í Zeppelin hafði Fréttablaðið samband við forsetaembættið og fékk þá þetta svar:

„Forsetann rekur ekki minni til þess. En hins vegar getur ýmislegt hafa gerst fyrir fjörutíu árum sem ekki er lengur fast í minni."

Líklegt er því að „staðreynd" Q í þessu nýjasta tölublaði sé úr lausu lofti gripin, í það minnsta þangað til annað kemur í ljós. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.