Opna ástralska meistaramótið í tennis er nú í fullum gangi en þeir Roger Federer og Novak Djokovic tryggðu sér í morgun sæti í undanúrslitum í einliðaleik karla.
Federer mætti í morgun landa sínum, Stanislas Warinka frá Sviss, í fjórðungsúrslitum og vann nokkuð auðveldan sigur, 6-1, 6-3 og 6-3.
Wawrinka var reyndar svo óánægður með eigin frammistöðu að hann grýtti spaðanum sínum í jörðina í miðri viðureigninni og eyðilagði hann.
Djokovic mætti Tékkanum Tomas Bedrych og vann sömuleiðis í þremur settum, 6-1, 7-6 og 6-1.
Síðari tvær viðureignirnar í fjórðungsúrslitunum fara fram á morgun en þá mætast annars vegar Alexandr Dolgopalov frá Úkraínu og Skotinn Andy Murray og hins vegar Spánverjarnir Rafael Nadal og David Ferrer.
Nadal er í efsta sæti heimslistans, Federer í því öðru, Djokovic þriðja og Murray fimmta. Robin Söderling er í fjórða sæti en hann féll úr leik í 16-manna úrslitum fyrir Dolgapalov - sá er í 46. sæti.
Wozniacki komin í undanúrslit
Fjórðungsúrslit í einliðaleik kvenna hófust einnig í dag. Caroline Wozniacki frá Danmörku tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum með sigri á Francescu Schiavone frá Ítalíu, 3-6, 6-3 og 6-3.
Hún mætir Li Na frá Kína en hún bar sigurorð af Andreu Petkovic frá Þýskalandi, 6-2 og 6-4.
Wozniacki er í efsta sæti heimslistans en Rússinn Vera Zvonareva í öðru sæti. Sú síðarnefnda mætir Petru Kvitova frá Tékklandi í fjórðungsúrslitum á morgun.
Sigurvegarinn úr þeirri viðureign mætir sigurvegaranum úr leik Agnieszku Radwanska frá Póllandi og Kim Clijsters frá Belgíu í hinni undanúrslitaviðureigninni.