Sport

Ótrúlegri sigurgöngu Bekele lokið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jeilan er hér fyrir miðri mynd en Farah lengst til hægri.
Jeilan er hér fyrir miðri mynd en Farah lengst til hægri. Nordic Photos / Getty Images
Eþíópíumaðurinn Kenenisa Bekele náði ekki að klára 10 km hlaup vegna meiðsla á HM í frjálsíþróttum í morgun. Þar með er ótrúlegri sigurgöngu hans í vegalengdinni lokið.

Landi hans, Ibrahim Jeilan, kom fyrstur í mark í greininni en hann hljóp á 27:13,81 mínútum.

Lokaspretturinn í hlaupinu var æsispennandi en Jeilan tók fram úr Mo Farah frá Bretlandi á síðustu metrunum. Farah fékk því silfur en annar Eþíópíumaður, Imane Merga, fékk brons.

Bekele er líklega einn allra besti langhlaupari allra tíma en hann varð að hætta í miðri keppni í morgun vegna meiðsla í fæti. Hann hefur verið að glíma við meiðslin síðustu tvö árin og var lengi vel óvíst hvort hann myndi taka þátt í keppninni.

Þótt ótrúlega megi virðast hefur Bekele aldrei tapað keppni í þessari vegalengd en hann er 29 ára gamall.

Hann vann til gullverðlauna í greininni á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 og Peking 2008. Hann hefur unnið gull í greininni á síðustu fjórum heimsmeistarakeppnum en missti titilinn í dag.

Bekele á einnig góðan árangur að baki í 5 km hlaupi. Hann vann gull í Peking og silfur í Aþenu. Hann vann gull í Berlín fyrir tveimur árum og brons í París árið 2003.

Heimsmeti hans í greininni, 26:17,53 mínútum, var þó ekki ógnað í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×