Innlent

Skordýrafræðingur auglýsir eftir geitungum

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Sjaldan hefur verið eins lítið um geitunga í byrjun sumars líkt og nú. Skordýrafræðingur man ekki eftir öðru eins ástandi og segir geitungastofninn hérlendis eiga bágt.

Vorið hefur verið óvenju kalt og kvarta margir yfir því að hitann skorti. Það gæti hins vegar glatt suma að einn af fylgifiskum þessa kalda vors er sá að geitungarnir virðast ekki vera að ná sér á strik

Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, hefur fylgst vel með geitungum síðustu árin. Aðspurður um það hvernig geitungarnir komi undan vetri svara hann því til að hann auglýsi eftir þeim því þeir hreinlega sjáist ekki. Hann hafi til að mynda aðeins séð einn og muni ekki eftir öðru eins ástandi.

Erling segir erfitt að segja til um hvort að geitungarnir geti náð sér á strik síðar í sumar ef það hlýnar. Kuldi líkt og nú hafi ekki þekkst síðustu árin. Þá hafi veðrið verið jafnara og geitungastofninn haldist svipaður ár frá ári. Hann hafi grun um að geitungastofninn eigi frekar bágt núna.

Fjórar tegundir geitunga voru hér á landi í lok síðustu aldar. Húsageitungurinn tók að hverfa eftir aldamótin og hefur hann ekki sést í tvö ár. Holugeitungum hefur einnig fækkað og segir Erling að svo geti farið að þeir hverfi líka. Það muni þó ekki skaða lífríkið enda voru Íslendingar án geitunga í langan tíma áður en þeir námu hér land.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×