Innlent

Frumvarpið ein stærstu mistök í íslenskri hagsögu

Hafsteinn Hauksson skrifar
Gjaldeyrishaftafrumvarp viðskiptaráðherra fær slæma í útreið í umsögnum sem Alþingi hafa borist. Ráðgjafarfyrirtæki kallar frumvarpið ein stærstu mistök í íslenskri hagsögu.

Haftafrumvarpinu er ætlað að lögfesta reglur gjaldeyrishöft, en það hefur hingað til verið í umsjón seðlabankans að gefa reglurnar út.

Efnahags og skattanefnd alþingis hefur undanfarið borist nokkur fjöldi umsagna um frumvarpið frá bæði fyrirtækjum og stofnunum, margar ansi harðorðar.

Ráðgjafarfyrirtækið Analytica segir til dæmis að frumvarpið feli í sér mesta mögulega velferðartap fyrir þjóðfélagið, og fullyrðir að lögleiðing þess væri á meðal stærstu mistaka í íslenskri hagsögu.

Samtök Fjármálafyrirtækja leggja einnig áherslu á slæm áhrif gjaldeyrishafta á efnahagslífið. Þau gagnrýna einnig að ferðamönnum sé gert að skila gjaldeyri sem ekki er notaður í utanlandsferðum og segja að ekki eigi að setja lög sem ekki er hægt að framfylgja.

Bæði ríkisskattstjóri og ríkisendurskoðandi gera sömuleiðis athugasemd við að erfitt gæti verið að framfylgja ákveðnum ákvæðum frumvarpsins um gjaldeyriskaup ferðamanna og það gera Neytendasamtökin líka.

Samtök atvinnulífsins viðra svipaða gagnrýni, og fullyrða einnig að íslenskt atvinnulíf geti ekki búið við gjaldeyrishöft til lengri tíma.

Nokkrir annarra umsagnaraðila gera þó litlar sem engar athugasemdir við frumvarpið og segja rétt að lögfesta reglurnar. Efnahags- og viðskiptanefnd hefur þegar brugðist við gagnrýni á frumvarpið, en meðal þeirra breytinga sem nefndin leggur til er að hætt verði við skilaskyldu á ferðamannagjaldeyri eftir að utanlandsferð lýkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×