Innlent

Ráðnir til upplýsingagjafar vegna eldgossins í Grímsvötnum

MYND/Egill
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita fjármagni til þess að ráða níu sumarstarfsmenn til þess að sinna upplýsingamiðlun til innlendra og erlendra ferðamanna í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum.

„Reynslan frá eftirleik eldgossins í Eyjafjallajökli á síðasta ári kennir okkur að rétt miðlun upplýsinga til ferðamanna skiptir gríðarlega miklu máli. Nú þegar askan úr eldgosinu í Grímsvötnum er sest þá standa ferðaþjónustuaðilar frammi fyrir sömu áskorun,“ segir í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu.

Þá segir að mikilvægt sé að hefja þegar markvisst starf við upplýsingamiðlun til innlendra og erlendra ferðamanna. Starfsmennirnir níu munu ganga til liðs við Markaðsstofu Suðurlands, upplýsingarveitur ferðamála og Kötlusetur.

Vinnumálastofnun og Iðnaðarráðuneytið skipta með sér kostnaði við átakið og nemur hlutur ráðuneytisins um 5,4 m.kr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×