Innlent

Nóg af bílastæðum í nágrenni Hörpu

"Við þjáumst ekki af neinum skorti,“ segir Karl Sigurðsson, borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður umhverfis- og samgönguráðs, um bílastæðamál í miðborginni.
"Við þjáumst ekki af neinum skorti,“ segir Karl Sigurðsson, borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður umhverfis- og samgönguráðs, um bílastæðamál í miðborginni. Mynd/Anton Brink
Formaður umhverfis- og samgönguráðs Reykjavíkur segir fjöldan allan af bílastæðum í nágrenni tónlistarhússins Hörpu. Mörg þeirra séu ekki í nema 200-300 metra fjarlægð. „Það er ekki langur labbitúr," segir formaðurinn.

Totus, fasteignafélag Hörpu, vill að bráðabirgðalandfylling austan við húsið standi áfram og verði nýtt undir bílastæði. Haft er eftir Stefáni Hermannssyni, framkvæmdastjóra Austurhafnar sem á og rekur tónlistarhúsið, í Fréttablaðinu í dag að 525 stæði í kjallara hússins séu engan veginn nóg fyrir gesti og starfsmenn.. Stefán segir ennfremur að upphaflega hafi skipulag á svæðinu gert ráð fyrir að öll starfsemin þar, Harpa, Landsbankinn og fyrirhugað hótel, gæti samnýtt tæplega tvö þúsund bílastæði, enda hefðu annatímar verið mjög ólíkir. „En nú er Harpan þarna ein og nýtur ekki þessarar samnýtingar."

Mynd/Bílastæðasjóður
Skipulagsráð hefur samþykkt umsögn frá skipulagsstjóra þar sem fram kemur að áðurnefnda landfyllingu verði að fjarlægja.

„Við höfum verið að benda á að það eru bílastæði í kringum Hörpu fyrir utan það sem er í kjallaranum. Í Kolaportinu eru 166 stæði og á Geirsgötuplaninu eru um 200 stæði," segir Karl Sigurðsson, formaður umhverfis- og samgönguráðs.

Hvorki umhverfis- og samgönguráði né skipulags- og byggingarráð hyggst aðhafast frekar í málinu, að sögn Karls. Hann bætir við að ekki sé skortur á bílastæðum í miðborginni og fjöldi þeirra miðað við fjölda starfa sé með því mesta sem gerist í heiminum fyrir utan helstu bílaborgir Bandaríkjanna. „Þannig að við þjáumst ekki af neinum skorti hérna," segir Karl.


Tengdar fréttir

Borgin vill starfsfólk Hörpunnar í strætó

"Mér finnst dálítið mikið að ætlast til þess að Harpa ein standi fyrir því að kollvarpa ferðavenjum Reykvíkinga,“ segir Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar sem á og rekur tónlistarhúsið Hörpu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×