Innlent

Gæfur krummi leikur sér við íbúa í Norðlingaholtinu

Þær Elma Dögg og Karen Sunna Atladætur fengu sannarlega góða sumargjöf þegar þær komu auga á krumma fyrir utan heimili sitt í Norðlingaholti. Hann reyndist vera einstaklega gæfur og segir Elma að þær systur hafi leikið sér við hann í um 40 mínútur.

„Við gáfum honum brauð og epli, hann vildi helst bara koma í fangið á manni." sagði Elma, en það voru foreldrar þeirra stúlkna sem höfðu samband við fréttastofu þegar þær sáu dætur sínar að leik með hrafninum fyrr í kvöld.

Atli Snæbjörnsson, faðir þeirra, sagði það vera mjög skemmtilegt að fylgjast með hrafninum. „Hann hoppar bara um, lætur taka myndir af sér og eltir krakkana. Kötturinn var rétt áðan að reyna að veiða hann, en krummi lék sér bara að honum."

Öll fjölskyldan virtist á sama máli með það að ekki væri um villtan hrafn að ræða. Þetta hlyti að vera taminn fugl. Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá stúlkurnar gefa krumma að borða, auk þess sem hann skorar á Elmu í eltingaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×