Innlent

Nærbuxnagengið kveikir áhuga stúlkna á vegagerð

Þeir kalla sig nærbuxnagengið, strákarnir sem þessa dagana vinna léttklæddir við nýtt hringtorg hjá Flúðum, og segja að stelpurnar hafi nú fengið óvenju mikinn áhuga á að fylgjast með framkvæmdunum.

Þetta er það sem blasir við vegafarendum á leið um nýja hringtorgið á góðviðrisdögum; stæltir sunnlenskir piltar, sem vinna á nærbrókunum einum saman. Piltarnir eru í vinnuflokki Lóðaþjónustunnar að helluleggja torgið sem tengir Flúðir við veginn um nýju Hvítárbrúna og þeir skýra klæðaburðinn með því að þarna sé steikjandi hiti.

Fréttamaður Stöðvar 2 hitti að máli bræðurna Orra og Þór Davíðssyni frá Selfossi, sem eru tvítugir, og Bjarka Friðgeirsson úr Hveragerði, sem er nítján ára. Þeir segja þetta vera keppni um það hver haldi lengst út án þess að klæða sig en viðurkenna að þetta veki athygli vegfarenda.

Spurðir hvernig stúlkur bregðist við sem aki framhjá segja þeir að þær flauti. Sumar kalli líka til þeirra, aðrar aki hægt um, og enn aðrar finni sér ástæðu til að stoppa og spjalla og spyrja til vegar, - þykist vera villtar. Þá sé eins og sumar hafi allt í einu fengið áhuga á að skoða framkvæmdirnar, en þeir telja sig vita betur hvað þær í raun vilji skoða. Viðtalið má sjá í frétt Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×