Fótbolti

Lyon og Real Madrid gerðu 1-1 jafntefli í Frakklandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Karim Benzema fagnar marki sínu í kvöld.
Karim Benzema fagnar marki sínu í kvöld. Mynd/AFP
Súperskipting Jose Mourinho virtist vera að létta Lyon-álögunum af Real Madrid en Frakkarnir náðu að tryggja sér 1-1 jafntefli átta mínútum fyrir leikslok í fyrri leik liðanna í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Varamaðurinn Karim Benzema kom Real yfir á móti sínum gömlu félögum en Bafetimbi Gomis skoraði jöfnunarmark Lyon.

Lyon átti besta færið í rólegum fyrri hálfleik en Real Madrid menn mættu miklu grimmari til leiks í þeim seinni eftir væntanlega góða hálfleiksræðu frá þjálfara sínum Jose Mourinho. Cristiano Ronaldo skaut meðal annars í stöngina úr aukaspyrnu og skömmu síðar skallaði Sergio Ramos í slána.

Real Madrid komst hinsvegar ekki yfir fyrr en að Mourinho var búinn að skipta Karim Benzema inn á fyrir Emmanuel Adebayor.  Benzema var ekki búinn að vera inn á vellinum nema í eina mínútu þegar hann kom Real Madrid í 1-0 á 65. mínútu. Mesut Ozil og Cristiano Ronaldo léku þá vel saman og spiluðu Benzema frían í teignum.

Claude Puel gerði í kjölfarið þrjár skiptingar á liði sínu og það virtist hafa góð áhrif því Bafetimbi Gomis jafnaði leikinn átta mínútum fyrir leikslok. Markið kom eftir aukaspyrnu sem Cris skallaði fyrir fætur Gomis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×