Fótbolti

Arshavin afar sáttur með sigurmarkið sitt á móti Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andrey Arshavin.
Andrey Arshavin. Mynd/AFP
Rússinn Andrey Arshavin býst alveg eins við því að hans verði minnst fyrir sigurmarkið sem hann skoraði á móti Barcelona í Meistaradeildinni í síðustu viku. Þetta var fyrri leikur liðanna í sextán liða úrslitum en sá seinni fer fram eftir tvær vikur.

Arshavin hafði þarna komið inn á sem varamaður og afgreiddi boltann síðan í mark Barcelona sjö mínútum fyrir leikslok eftir að hafa fengið sendingu frá Samir Nasri. Þetta var fyrsti sigur Arsenal á Barcelona í sex tilraunum og aðeins þriðji tapleikur Barcelona á þessu tímabili.

„Það er stór stund fyrir alla leikmenn að skora á móti Barcelona og kannski sú stærsta á ferlinum. Maður nær ekki oft að skora á móti Barcelona og hvað þá að tryggja sínu liði sigur á móti þeim," sagði Arshavin stoltur í viðtali við heimasíðu Arsenal.

„Ég var rólegur og yfirvegaður þegar ég kom inn í leikinn og nýtti síðan færið þegar ég fékk það. Ég tel ekki að ég hafi breytt leiknum þegar ég kom inn á völlinn því ég myndi segja það ef svo væri," sagði Arshavin.

„Þetta leit samt ekki vel út þegar ég sat á bekknum því Barcelona var svo mikið með boltann. Við urðum að vera þolinmóðir og það tókst hjá okkur," sagði Arshavin.

„Ég var mjög hátt uppi eftir leikinn en eins og alltaf þá er þessi leikur búinn og við þurfum að fara að huga að þeim næsta," sagði Arshavin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×