Fótbolti

Mascherano gerir grín að væli Arsenal-manna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Javier Mascherano í baráttu við samir Nasri í gær.
Javier Mascherano í baráttu við samir Nasri í gær. Mynd/AFP
Javier Mascherano, argentínski miðjumaðurinn hjá Barcelona, gagnrýndi liðsmenn og stjóra Arsenal fyrir að kenna svissneska dómaranum Massimo Busacca um tapið í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Barcelona vann leikinn 3-1 og þar með 4-3 samanlagt en Arsenal-menn léku einum manni færri frá 56. mínútu eftir að Hollendingurinn Robin van Persie fékk sitt annað gula spjald fyrir að skjóta á markið eftir að það var búið að dæma hann rangstæðan.

Arsenal-menn voru allt annað en sáttir við þetta rauða spjald og Wenger sagði að Arsenal hefði farið áfram ef liðið hefði verið með ellefu menn út leikinn.

„Það er eins og Barcelona vinni alltaf með hjálp frá dómurunum en ekki þökk sé spilamennsku liðsins. Það hafði þannig ekkert með úrslitin að gera að Barcelona náði 19 skotum að marki. var með boltann í yfir 74 prósent leiktímans og gaf næstum því 900 heppnaðar sendingar," sagði Javier Mascherano.

„Við skulum sleppa allri hræsni. Við leyfðum þeim ekki að anda og það var lykillinn að okkar sigri. Við spiluðum Barca-boltann og þess vegna fórum við áfram," sagði Mascherano.

Mascherano talaði líka um að það væri eins og allir óskuðu þess að Barcelona tapaði en það skipti engu máli því þeim væri alveg sama um skoðanir annarra.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×