Enski boltinn

Guardiola: Fullkominn leikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Pep Guardiola, stjóri Barcelona, hrósaði sínum mönnum mikið eftir sigurinn á Arsenal í gær.

Börsungar unnu þá 3-1 sigur á þeim ensku og komust áfram í fjórðungsúrslit Meistaradeildar Evrópu með samanlögðum 4-3 sigri.

Í stöðunni 1-1 fékk Robin van Persie að líta sína aðra áminningu í leiknum fyrir ansi litlar sakir og þar með rautt. Guardiola segir hins vegar að það hafi litlu breytt í leiknum.

„Ég veit það ekki. Maður veit aldrei svona lagað," sagði hann þegar hann var spurður hvort að rauða spjaldið hefði breytt leiknum. „Við spiluðum vel þegar við vorum ellefu gegn ellefu, líka ellefu gegn tíu."

„Arsenal er mjög gott lið en náði ekki að skila sínum sendingum í kvöld. Við sköpuðum okkur mörg færi og stjórnuðum leiknum vel. Við spiluðum fullkominn leik."

„Ég skil vel gremju Arsenal enda erfitt að vera manni færri. Ég skil vel viðbrögð þeirra eftir seinna gula spjaldið hjá van Persie."

„En ég reyni fyrst og fremst að líta á hvernig við spiluðum í leiknum og er ég afar ánægður með það. Ég tel að við áttum skilið að fara áfram enda betri aðilinn þegar báðir leikirnir eru skoðaðir í heild sinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×