Enski boltinn

Fabregas baðst afsökunar á mistökunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Cesc Fabregas hefur beðist afsökunar á mistökunum sem hann gerði skömmu áður en Barcelona skoraði fyrsta markið í 3-1 sigri sínum á Arsenal í gær.

Barcelona vann samanlagðan 4-3 sigur á Arsenal í 16-liða úrslitunum en komst á bragðið í gær með marki Lionel Messi í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Fabregas reyndi hælsendingu rétt fyrir utan eigin vítateig en gaf þá Andres Iniesta boltann sem náði að leggja hann inn fyrir vörn Arsenal og fyrir fætur Messi sem skoraði.

Sergio Busquets jafnaði svo metin fyrir Arsenal með sjálfsmarki snemma í síðari hálfleik en skömmu síðar fékk Robin van Persie að líta sína aðra áminningu í leiknum og þar með rautt spjald.

Barcelona skoraði tvívegis eftir þetta og tryggði sér þar með sigurinn í rimmunni. Xavi skoraði fyrst og svo Messi úr víti.

Afsökunarbeiðni Fabregas kom á Twitter-síðunni hans. „Frábær stuðningur frá stuðningsmönnum Arsenal í kvöld," skrifaði hann. „Ég tek á mig alla sök fyrir tapinu. Þetta var eitt versta augnablik lífs míns. Ég biðst afsökunar."

Jack Wilshere reyndi að horfa á björtu hliðarnar á sinni Twitter-síðu. „Við verðum að taka okkur saman í andlitinu og vinna á laugardaginn. Við erum á góðu skriði í deildinni og þetta gæti enn orðið okkar ár."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×