Fótbolti

Guardiola: Við munum sækja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Pep Guardiola, stjóri Barcelona.
Pep Guardiola, stjóri Barcelona. Nordic Photos / Getty Images
Pep Guardiola, stjóri Barcelona, segir að höfuðáhersla verði lögð á sóknarleik þegar að liðið tekur á móti Arsenal í síðari viðureign þeirra í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Arsenal vann fyrri viðureignina í Lundúnum, 2-1, og eiga því Börsungar ekki aðra kosti en að sækja til sigurs. 1-0 sigur mun duga liðinu til að komast áfram í fjórðungsúrslitin.

Guardiola á þó von á erfiðum leik í kvöld. „(Nicklas) Bendtner er mjög góður leikmaður, rétt eins og (Marouane) Chamakh. Robin van Parsie er líka frábær. Þetta eru allt góður leikmenn."

„Leikmenn munu ekki fá mikið pláss inn á miðvsvæðinu en aðeins meira pláss út á köntunum. Við verðum að vera varkárir í okkar sóknaraðgerðum því að Arsenal getur beitt skyndisóknum."

„Arsenal er ekki lið sem er veikt fyrir andlega. Liðið er í toppbaráttu í Englandi og standa sig vel á hverju ári í Meistaradieldinni. Staðreyndin er sú að þetta er mjög gott lið."

„Um leið og liðið vinnur sinn fyrsta stóra titil gera leikmenn sér grein fyrir því að þeir eru nógu góðir til að vinna fleir titla."

„Við munum sækja. Ég get fullvissað alla um að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að vinna leikinn. Markmið okkar er að gera það sem þarf að gera til að vinna þá - það er það eina sem skiptir máli í leik sem þessum."

Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur þó átt við ákveðin meiðslavandamál að stríða fyrir leikinn í kvöld. Theo Walcott og Alex Song verða ekki með vegna meiðsla og þá er van Persie mjög tæpur. Cesc Fabregas hefur verið meiddur en ætti að geta verið með í kvöld.

Börsungar hafa einnig átt við sín vandræði að stríða en varnarmennirnir Gerard Pique og Carles Puyol verða ekki með í kvöld. Pique er í banni en Puyol meiddur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×