Fótbolti

Fabregas: Verður sérstakur leikur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fabregas og Wenger á blaðamannafundi.
Fabregas og Wenger á blaðamannafundi. Nordic Photos / Getty Images
Cesc Fabregas snýr í kvöld aftur til Barcelona þar sem hann mun leiða lið sitt, Arsenal, til leiks í síðari viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Fabregas spilaði með unglingaliðum Barcelona áður en hann gekk til liðs við Arsenal aðeins sextán ára gamall. Hann hefur verið sterklega orðaður við Barcelona undanfarin misseri en er enn í Lundúnum.

„Ég er auðvitað mjög ánægður með að vera kominn aftur hingað,“ sagði Fabregas við fjölmiðla á Spáni. „En ég verð að vera fagmannlegur og standa mig eins vel og ég get fyrir mitt lið.“

Fabregas hefur átt við meiðsli að stríða að undanförnu en er aftur orðinn heill heilsu fyrir leikinn í kvöld. Þessi sömu lið mættust í fjórðungsúrslitum keppninnar í fyrra og þá missti Fabregas af síðari viðureign liðanna sem Börsungar unnu, 4-1.

Arsenal hefur forystu í einvíginu fyrir leik kvöldsins eftir að hafa unnið fyrri leikinn í Lundúnum, 2-1.

„Ég hef haft áhyggjur af meiðslunum síðustu tvær vikurnar en ég er í lagi núna. Ég hef ekki ofreynt mig enda er Arsenal mér það mikilvægt að ég vil ekki taka neina áhættu með mína heilsu.“

„En við viljum vinna titla og við höfum getuna til þess. Það vilja allir leikmenn liðsins sýna hversu góðir við erum og við eigum mjög góðan möguleika á því að komast áfram í næstu umferð.“

„Þetta verður sérstakur leikur en ég vil einfaldlega að mitt lið vinni leikinn. Það truflar mig ekki neitt þó svo að hitt liðið sé Barcelona.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×