Skoðun

Þing­maður Sjálf­stæðis­flokks hefur rétt fyrir sér

Björg Eva Erlendsdóttir skrifar

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokks segir að fulltrúar notenda svæða innan Vatnajökulsþjóðgarðs séu meira og minna kolvitlausir. Með þeim rökum gagnrýnir hann umhverfisráðherra fyrir verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs. Svandís Svavarsdóttir ber í bætifláka og segir að gangandi ferðamenn sem hafi kannski að jafnaði lægra í þjóðfélaginu, séu ekki kolvitlausir.



En hvað veit ráðherrann um þá sem ekki heyrist í? Skotveiðimenn eru kolvitlausir, jeppamenn eru kolvitlausir og fulltrúar Hagsmunasamtaka frekra karla (algengasta gerð íslenskra samtaka) eru allir kolvitlausir. Og það heyrist bara í þeim. Fólkið sem Svandís Svavarsdóttir telur sig vita að sé ekki kolvitlaust er ósýnilegt. Það er aldrei í fréttum og í rauninni er ekki hægt að fullyrða að það sé til.



Að leyfa fólki að vera til er ábyrgð fjölmiðla, en hana eru þeir eru ekki að axla. Það fundu samtök ungs fólk sem héldu blaðamannafund í vikunni, til að kynna þá framtíð sem þau vildu sjá. Þau höfðu ekki í hótunum og rödd þeirra barst ekki út í samfélagið.



Í söguritun og opinberri umræðu segir fátt af hógværum. Ómögulegt er að vita hvort þeir séu sáttir. Þeir lifa lífi sínu í kyrrþey, ef þeir eru til. En skotveiðimenn og jeppafélög eru örugglega til, drunurnar og púðurskotin leyna sér ekki þegar þeir mæta í fjölmiðlana á hverjum morgni. Meira og minna kolvitlausir, eins og Kristján Þór bendir réttilega á.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×