Innlent

"Ætlum ekki að láta það gerast að Ísland verði að einhverju mafíulandi"

Frá fundinum í dag. Haraldur Johannessen, Ögmundur Jónasson, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Frá fundinum í dag. Haraldur Johannessen, Ögmundur Jónasson, Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri á Suðurnesjum. Mynd/Stefán Karlsson
„Baráttan er ekki að byrja í dag," sagði Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu á blaðamannafundi um skipulagða glæpastarfsemi og viðbögð yfirvalda á Íslandi fyrir stundu.

Hann segir að baráttan gegn því að erlendir glæpahópar nái að skjóta hér rótum hafi staðið yfir árum saman. Þá séu birtingamyndir brotastarfseminnar hér á landi ýmsar. „Við höfum rannsakað mál um eiturlyfjaframleiðslu og eiturlyfjainnflutning. Einnig tengingu þessa hópa við brotastarfsemi, svo sem innbrot á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Stefán.

Hann sagði að það sem skipti mestu máli sé samvinna við almenning. „Við munum treysta á ábendingar sem koma frá fólkinu í landinu, því þetta er samfélagslegt átak ekki einkamál lögreglunnar, eins kom skýrt fram á Alþingi í gær,“ sagði Stefán og benti á að sumt fólk búi yfir upplýsingum sem koma lögreglunni að góðu.

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, tók undir með Stefáni og sagði að mikilvægt væri að almenningur stæði með lögreglu- og tollyfirvöldum. „Við ætlum ekki að líða það að glæpahópar nái tökum á okkar þjóðfélagi,“ sagði Ögmundur. „Við ætlum ekki að láta það gerast að Ísland verði að einhverju mafíulandi sem stjórnað er af glæpahópum,“ sagði hann ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×