Körfubolti

Birna kemst aftur í skóna og verður með Keflavík á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Birna Valgarðsdóttir fagnar hér bikarmeistaratitlinum með Keflavík en hún hefur ekki spilað síðan þá.
Birna Valgarðsdóttir fagnar hér bikarmeistaratitlinum með Keflavík en hún hefur ekki spilað síðan þá. Mynd/Daníel
Birna Valgarðsdóttir, fyrirliði kvennaliðs Keflavíkur, verður með liðinu í fyrsta leik undanúrslitaeinvígsins á móti KR á morgun. Birna hafði misst af síðustu þremur leikjum Keflavíkur eftir að hún meiddist í bikarúrslitaleiknum á móti KR.

Birna kláraði bikarúrslitaleikinn þrátt fyrir meiðslin og var valin maður leiksins. Hún verður með í fyrsta sinn á morgun eftir að hafa verið frá keppni í 28 daga.

„Ég er öll að koma til og ristin er að verða góð. Ég fékk sprautu hjá Gauta og þetta er búið að hjaðna og lagast. Ristin er að verða fín," sagði Birna í samtali við Vísi.

Það er óhætt að segja að Keflavíkurliðið hafi saknað Birnu því liðið hefur tapað tveimur síðustu leikjum sínum eftir að hafa unnið fyrsta leikinn án hennar á flautukörfu.

Birna hefði alveg treyst sér til þess að spila en það var einn hængur þar á.

„Ég gat ekki reimt á mig körfuboltaskóna því ég komst ekki ofan í skóinn. Annars hefði ég spilað með," sagði Birna í léttum tón en hún er þekkt fyrir að spila í gegnum ýmis meiðsli enda mikið hörkutól.

„Ég verð með á morgun. Það þýðir ekkert annað," sagði Birna að lokum.

Birna er að reyna að vinna sinn sjötta Íslandsmeistaratitil á ferlinum en hún hefur átt mjög gott tímabil þar sem hún er með 15,8 stig, 5,2 fráköst og 3,6 stoðsendingar að meðaltali í leik.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×