Innlent

Umtalsverðar skemmdir á Laxárvirkjun

Laxárvirkjun tvö í Suður-Þingeyjarsýslu hefur verið stöðvuð eftir að grjót komst inn í vatnshjól virkjunarinnar og olli umtalsverðum skemmdum. Landsvirkjun segir að verið sé að meta ástandið og ákvörðun um viðgerð verður tekin í framhaldi en ekki sé ljóst hvenær stöðin kemst aftur í rekstur.

Laxárvirkjun tvö, sem hóf starfsemi árið 1953, er 9 megavött að stærð og nemur raforkuframleiðsla hennar 76 gígavattstundum á ári, eða 0,6% af heildarvinnslu Landsvirkjunar.

Tvær aðrar virkjanir eru í Laxárgljúfrum. Laxárvirkjun eitt, upp á 5 megavött, hóf rekstur árið 1939, og Laxárvirkjun þrjú, sem er 13,5 megavött, var tekin í notkun árið 1973.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×