Innlent

Fyrrverandi oddviti Samfylkingarinnar segir sig úr flokknum

Guðbrandur Einarsson, fyrrverandi oddviti Samfylkingarinnar og A-listans í Reykjanesbæ hefur sagt sig úr Samfylkingunni. Hann segir skoðanir sínar og flokksforystunnar ekki lengur fara saman og segir því skilið við flokkinn.

Guðbrandur tapaði slagnum um efsta sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar. Hann tók ekki annað sætið á listanum þrátt fyrir að það stæði honum til boða. Nú hefur hann sagt skilið við Samfylkinguna fyrir fullt og allt.

Í yfirlýsingu frá Guðbrandi segir hann þrjár ástæður liggja til grundvallar úrsögn hans. Í fyrsta lagi hafi núverandi bæjarfulltrúar lagst gegn tillögum um byggingu nýs hjúkrunarheimilis. Guðbrandur hafði unnið að tillögu um bygginguna ásamt bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þetta túlkar Guðbrandur sem vantraust.

Guðbrandur telur einnig til að bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar hafi ekki samþykkt tillögu Sjálfstæðismanna og Framsóknarflokksins um að orkuauðlindir ættu að vera í sameign þjóðarinnar en sömu tillögu hafði Guðbrandur flutt nokkrum árum áður. Þá gagnrýnir Guðbrandur Samfylkinguna fyrir að hafa ekki skipað hann áfram sem fulltrúa flokksins í HS Orku.

„Ég sé því ekki að skoðanir mínar og þeirra sem eru forsvarsmenn Samfylkingarinnar í Reykjanesbæ nú um stundir fari saman á nokkurn hátt," segir Guðbrandur í yfirlýsingu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×