Innlent

Loðnukavíar í regnbogans litum á Raufarhöfn

Kavíar úr loðnuhrognum í öllum regnbogans litum er nú framleiddur á Raufarhöfn, til að selja á sushi-veitingastaði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Jökull á Raufarhöfn var áður stærsti vinnustaður byggðarinnar en félagið er nú í eigu GPG fiskverkunar á Húsavík. Þarna starfa þrettán manns, Íslendingar og Pólverjar, og aðalverkefnið þessa dagana er hrognavinnsla. Þarna eru verkuð þorskhrogn en einnig loðnuhrogn og það er sú vinnsla sem vekur athygli okkar, ekki síst fjölbreytt litabrigði loðnuhrognannna; þau eru gul, rauð og græn.

Magnús Einarsson, verkstjóri hjá GPG-fiskverkun, segir að hrognin séu bæði lituð og bragðbætt en síðan fryst. Þau séu síðan seld til Bandaríkjanna og Evrópu og verið sé að senda út prufur víða. Hann segir alveg óhætt að kalla þetta kavíar.

Þeir byrjuðu á þessari tilraun síðastliðið haust til að freista þess að skapa enn meiri verðmæti úr loðnunni en svona eru hrognin seld til veitingastaða sem sérhæfa sig í japönskum sushi-réttum. Þeir prófa sig áfram með mismunandi bragðefni, og okkur er boðið að smakka. Í fréttum Stöðvar 2 má sjá fréttamann þræða sig í gegnum hinar ýmsu bragðtegundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×