Fótbolti

Ítalir að íhuga að láta 21 árs landsliðið spila í b-deildinni sinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Federico Macheda er í ítalska 21 árs landsliðinu.
Federico Macheda er í ítalska 21 árs landsliðinu. Mynd/AFP
Forráðamenn ítalska knattspyrnusambandsins íhuga það þessa dagana að gera þá róttæku breytingu að skrá 21 árs landsliðið sitt til leiks í b-deildina sína með það að markmiði að hjálpa ungum leikmönnum að fá að spila meira.

Ítalir, sem urðu heimsmeistarar 2006, tefldu fram "gömlu" liði á HM í Suður-Afríku og duttu þar út í riðlakeppninni. Cesare Prandelli, nýi þjálfari landsliðsins, hefur gagnrýnt félögin fyrir að sýna ungum leikmönnum alltof lítið traust.

Ítalska sambandið hefur ekki ákveðið hvernig best er að útfæra þessa hugmynd en það er þegar ljóst að bæði Cesare Prandelli og  Arrigo Sacchi, yfirmaður yngri landsliða, hafa tekið vel í þessa nýstárlegu leið til að hjálpa framgöngu yngri leikmanna ítölsku þjóðarinnar.

Demetrio Albertini, varaformaður ítalska sambandsins, segir að næsta skref sé að fara með þessa hugmynd fyrir stjórn sambandsins.

Ítalir komust ekki í úrslitakeppni Evrópumóts 21 árs liða sem fram fer í Danmörku í sumar en íslenska 21 árs landsliðið er þar eitt af átta liðum og í riðli með Dönum, Svisslendingum og Hvít-Rússum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×