Innlent

70 Breiðavíkurbörn fá að vita um upphæð sanngirnisbóta á morgun

Valur Grettisson skrifar
Breiðavíkurdrengir máttu þola ofbeldi og vítisvist sem börn.
Breiðavíkurdrengir máttu þola ofbeldi og vítisvist sem börn.
Mennirnir, sem dvöldu á vistheimilinu Breiðavík, eiga von á sáttatilboði frá sýslumanninum á Siglufirði á morgun.

Breiðavíkursamtökin, sem heita Samtök vistheimilabarna í dag, hafa boðað til fundar á föstudaginn þar sem farið verður yfir bréfið. Í því verður hverjum og einum tilkynnt hversu háar bætur þeir fá frá ríkinu eftir að hafa þolað vítisvist á Breiðavík um miðja síðustu öld.

Alls munu 70 bréf, eða sáttatilboð eins og þau eru kölluð, verða send út.

Samkvæmt heimildum Vísis þá er matinu skipt upp í punkta. Alls geta vistmennirnir fengið 100 punkta en hver punktur er metinn á sextíu þúsund krónur. Þannig hæstu mögulegu bæturnar verða sex milljónir. Hver punktur táknar í raun ofbeldi sem viðkomandi hefur orðið fyrir.

Bréfið átti fyrst að fara út í febrúar en seinkaði. Matið byggir á framburði vistmannanna fyrir Spanó-nefndinni svokölluðu, fyrir nokkrum árum síðan, og er nefnd í höfuðið á formanni nefndarinnar, Róberti Spanó.

Vísir ræddi við nokkra vistmenn sem vildu ekki láta nöfn sín getið. Einn sagði kurr í félagsmönnum samtakanna vegna málsins. Annar þeirra, sem hafði rætt við sýslumann á Siglufirði, sagði ólíklegt að nokkur vistmanna myndi fá fullar bætur, það er að segja sex milljónir, eftir að hafa dvalið á Breiðavík.

Vistmennirnir fyrrverandi mega búast við bréfinu á morgun. Bæturnar verða svo greiddar út þann 1. apríl. Þó geta vistmenn hafnað boðinu og leitað réttar síns séu þeir ósáttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×