Innlent

Segja árangur í úrslitakeppni vera öskubuskuævintýri

Boði Logason skrifar
Strákarnir í Sláturfélagi Seltjarnarness eru komnir í úrslitaleikinn í utandeildinni en þeir byrjuðu að stunda íþróttina í haust.
Strákarnir í Sláturfélagi Seltjarnarness eru komnir í úrslitaleikinn í utandeildinni en þeir byrjuðu að stunda íþróttina í haust. Mynd/Stefán Hirst
„Okkur fannst alveg hrikalegt að okkar frábæra bæjarfélag hafi aldrei boðið upp á körfubolta þannig við ákváðum að taka málið í okkar hendur," segir Stefán Hirst Friðriksson, einn stofnenda körfuboltaliðsins Sláturfélag Seltjarnarness.

 

Stefán stofnaði ásamt vinum sínum körfuboltafélag í haust og hafa þeir félagar tekið þátt í svokallaðri utandeild, sem íþróttafélagið Breiðablik stendur fyrir. Í fyrstu ætluðu strákarnir að hittast nokkrum sinnum í viku og leika sér í körfubolta en það breyttist fljótt og eru þeir nú komnir í úrslitaleikinn í deildinni.

 

„Það hefur enginn æft körfubolta áður vegna þess að það var aldrei í boði að æfa körfubolta hérna á Nesinu. Í sumar vorum við á pallinum hjá mér þegar okkur datt þetta í hug, en við höfum allir spilað körfubolta á götunni, eins og það er sagt," segir Stefán en strákarnir í liðinu eru á aldrinum 17 til 24 ára.

 

Mikið afrek að ná í úrslitaleikinn

„Á fyrstu æfingunum kunnum við nú ekki mikið og við byrjuðum ekki vel í deildinni í haust. En við höfum verið á stífum æfingum og höfum tekið ótrúlega miklum framförum á stuttum tíma. Það hefur verið mikill stígandi í þessu hjá okkur og nú erum við komnir í úrslitaleik deildarinnar," segir hann og bætir við að strákunum hafi ekki órað fyrir því þegar þeir byrjuðu í haust að ná í úrslitaleikinn sjálfan, sem þeir telja vera mikið afrek. „Það má segja að þetta sé öskubuskuævintýri hjá okkur strákunum," segir Stefán.

 

Settu á svið blaðamannafund

En hver eru framtíðaráform liðsins? „Við ætlum allavega að byrja á því að vinna úrslitaleikinn á föstudaginn og við vonum að það sé einungis byrjunin á þessu ævintýri okkar," segir Stefán. „Við stefnum að því að skrá okkur í aðra deildina næsta haust ásamt því að taka þátt í bikarkeppni á vegum KKÍ. Það gæti þó verið fjarlægur draumur vegna skorts á fjármagni og aðstöðuleysi. Svo er það draumur allra ungra körfuknattleiksmanna að enda í NBA deildinni, en ég held að sá draumur sé aðeins lengra í burtu. En hver veit hvað framtíðin ber í skauti sér," segir Stefán sprækur að lokum.

 

Úrslitaleikurinn fer fram í Smáranum í Kópavogi næstkomandi föstudagskvöld klukkan 20:30, en þar eigast við Sláturfélag Seltjarnarness og körfuknattleiksliðið Patrekur.

 

Strákarnir hafa gert heilmikið úr stofnun liðsins og halda úti öflugri heimasíðu þar sem nýjustu fréttir koma inn. Þeir brugðu einnig á það ráð að setja á svið blaðamannafund fyrir úrslitaleikinn. Hægt er að sjá það hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×