Innlent

Svanurinn þekktasta umhverfismerkið

Neytendur tengja Svaninn við umhverfisvernd
Neytendur tengja Svaninn við umhverfisvernd
Norræna umhverfismerkið Svanurinn er lang þekktasta umhverfismerkið á Íslandi. Þetta er niðurstaða könnunar um umhverfis- og neytendamerki sem Capacent Gallup gerði í desembermánuði.

Þegar þátttakendur voru beðnir um nefna eitthvert umhverfismerki sem þeir könnuðust við þá nefndu 45% aðspurðra Svaninn en innan við 6% nefndu þau umhverfismerki sem næst komu í röðinni.

Í sambærilegri könnun frá 2009 nefndu 28% Svaninn. Af þessu má sjá að Svanurinn er ekki einungis það merki sem er neytendum efst í huga heldur styrkir hann einnig stöðu sína verulega milli ára.

Þegar þátttakendum könnunarinnar var sýnt merki Svansins sögðust 73% þekkja það og þegar spurt var hvaða merki tengir þú við umhverfisvernd nefndu langflestir Svaninn eða 79%.

Svanurinn virðist einnig hafa bætt mjög ímynd sína og almenningshylli milli ára því árið 2009 sögðu 8% aðspurðra að þeim líkaði við Svaninn en 2010 er þetta hlutfall komið í 46%. Hlutfallið hækkar því rúmlega fimmfalt á milli ára. En jafnframt því að gera kröfu um minni umhverfisáhrif, er einnig gerð krafa um virkni og gæði vottaðrar vöru eða þjónustu.

Á Íslandi bera nú 14 aðilar umhverfisvottun Svansins en það eru prentsmiðjurnar Guðjón Ó, Oddi, Svansprent, Ísafold og Háskólaprent; ræstingarþjónusturnar Sólarræsting, ISS, Hreint, Nostra og AÞ-þrif; iðnaðarhreinsiefni frá Undra, Farfuglaheimilið í Laugardag og á Vesturgötu og kaffihús Kaffitárs. Nánar má lesa um Svaninn á svanurinn.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×