Innlent

Kona fær dvalarleyfi þrátt fyrir synjun Útlendingastofnunar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu í morgun.
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í málinu í morgun.
Héraðsdómur hefur fellt úr gildi úrskurð dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins frá 14. desember 2009 um að synja konu um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli þess að hún hafði stofnað til málamyndahjúskapar með íslenskum karlmanni. Með úrskurði sínum hafði ráðuneytið staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar.

Helstu röksemdir Útlendingastofnunar fyrir því að ætla að hjúskapurinn hafi verið til málamynda voru þær að mikill aldursmunur er á fólkinu, að til hjúskaparins hafi verið stofnað eftir stutt kynni hjónanna og að sannað sé að hjónin búi ekki saman á heimili maka stefnanda, eins og hann hafi haldið fram við lögreglu og tekið hafi verið fram í umsókn stefnanda um dvalarleyfi.

Lögreglan fylgdist með ferðum við heimili mannsins, meðal annars yfir jóla­hátíðina 2008, og fram kemur í úrskurði héraðsdóms að aldrei hafi sést til ferða konunnar í eða við heimili makans. Þá spurðist lögregla fyrir hjá nágrönnum og vinum makans en engir þeirra hefðu séð konuna.

Í dómnum kom hins vegar einnig fram að maðurinn, sem konan stofnaði til hjúskapar með, væri mikið fjarverandi vegna vinnu og það hefði takmarkað hversu oft þau gætu hist. Þá sé konan jafnframt kaþólsk og að í heimalandi hennar sé ekki siður að fólk búi saman áður en það giftir sig.

Héraðsdómur kemst því að þeirri niðurstöðu að ályktanir, sem dregnar voru í úrskurði dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins um búsetu konunnar og maka hennar og að þau hefðu ekki reglulegt samneyti hvort við annað hafi alls ekki verið byggðar á nægilega traustum gögnum þegar tekin var sú afdrifaríka ákvörðun með úrskurðinum að staðfesta ákvörðun ráðuneytisins um að synja konunnar um dvalarleyfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×