Innlent

Drög að þriggja ára kjarasamningi liggja fyrir

Kjarasamningur milli vinnuveitenda og verkalýðshreyfingarinnar liggur fyrir í öllum megindráttum utan þess að enn er beðið eftir áformum og útspili ríkisstjórnarinnar.

Samkvæmt heimildum Fréttastofu liggja fyrir drög að kjarasamningi til næstu þriggja ára. Í þeim er gert ráð fyrir að laun hækki almennt um 3% á ári á samningstímanum eða 9% í heild. Vinnuveitendur munu í fyrstu hafa boðið upp á 7,5% launahækkun á þremur árum en verkalýðsforystunni fannst það tilboð of lágt og niðurstaðan varð 9%.

Ef verðbólguþróun helst eins og verið hefur undanfarna mánuði má reikna með að 9% launahækkun skili hátt í 2% kaupmætti á samningstímanum.

Forystumenn Alþýðusambandsins og Samtaka atvinnulífsins munu funda með stjórnvöldum um málið í dag. Ljóst er að stjórnvöld þurfa að taka ákvarðanir sem ýta undir fjárfestingar í atvinnulífinu og er þar meðal annars horft til byggingar álversins í Helguvík með tilheyrandi virkjanaframkvæmdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×