Fótbolti

Deilur og lögreglumál í aðalhlutverki hjá Marseille

Ramires, leikmaður Chelsea, er hér í baráttunni gegn Brandao.
Ramires, leikmaður Chelsea, er hér í baráttunni gegn Brandao. Nordic Photos/Getty Images
Franska liðið Marseille mætir Manchester United í kvöld í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar og hafa leikmenn franska liðsins þurft að hugsa um ýmislegt annað en fótbolta í aðdraganda leiksins.

Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli og eru möguleikar Marseille því enn til staðar en það hefur margt gengið á í herbúðum liðsins á undanförnum dögum. Þar ber hæst að framherjinn Brandao var handtekinn en hann er til rannsóknar vegna atviks sem átti sér stað á næturklúbbi þann 2. mars s.l.

Brandao, sem er þrítugur, er ásakaður um kynferðisafbrot gegn 23 ára gamalli konu en leikmaðurinn hefur játað að hafa sofið hjá konunni og er málið enn til meðferðar hjá lögreglunni.

Þjálfari Marseille Didier Deschamps hefur einnig verið í sviðsljósinu í fjölmiðlum en hann hefur gagnrýnt forsete Marseille, Jean-Claude Dassier.

Forsetinn telur að aginn í herbúðum liðsins sé ekki nægjanlega mikill. Dassier setur stórt spurningamerki við þá staðreynd að Brandao var á næturbrölti rétt fyrir leik í deildarkeppninni gegn Lille.

Deschamps svaraði forsetanum fullum hálsi og sagði að málið hefði verið tekið föstum tökum hjá félaginu - en lögreglan hefur yfirheyrt marga leikmenn og starfsmenn vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×